Símon Birgisson, sem er fyrrverandi blaðamaður á DV, segir á bloggvef sínum að hann hafi einu sinni verið beittur ritskoðun af hálfu blaðsins, sem hafi orðið til þess að hann sagði upp störfum. Það hafi verið sumarið 2005 þegar fjölmiðlar hafi beðið birtingu ákæruliða í Baugsmálinu svokallaða.
Hann segir að þriðja ágúst hafi hann komist að því að Fréttablaðið hafi haft undir höndum hluta ákæruskjala auk tveggja viðtala um ákæruatriðin, bæði við við Jón Ásgeir Jóhannesson og Jóhannes Jónsson, föður Jóns Ásgeirs.
Símon segist hafa skrifað tvær greinar um málið sem hafi hvorugar verið birtar. Það hafi orðið til þess að hann sagði upp.
Þá segir hann að Baugur, sem var eigandi DV, hafi verið í samstarfi við breska dagblaðið Guardian um hvernig yrði að málsvörn forsvarsmanna félagsins staðið í fjölmiðlum.