Héraðsdómur Reykjavíkur dæmdi í morgun karlmann á sextugsaldri í sex mánaða fangelsi fyrir umferðarlagabrot og árás á lögreglumann. Með brotum sínum nú rauf maðurinn skilorð dóms sem hann hlaut í janúar 2007 fyrir líkamsárás.
Ákæra á hendur manninum var í fimm liðum. Í fyrsta lagi var hann ákærður fyrir að hafa ekið bifreið án gildra ökuréttinda og lögboðinnar ábyrgðartryggingar. Í öðru lagi fyrir ölvunarakstur og akstur án ökuréttinda. Þá var maðurinn ákærður fyrir brot gegn valdstjórninni en þegar hann var stöðvaður vegna meints ölvunaraksturs, réðist hann á lögreglukonu, tók hana hálstaki og reif í hár hennar. Lögreglukonan hlaut mar í hársverði, tognun í hálsi, mar og yfirborðsáverka á hálsi, mar á brjóstkassa og mar á öxl og í andliti. Tvívegis eftir þetta var maðurinn stöðvaður af lögreglu vegna aksturs án ökuréttinda.
Maðurinn viðurkenndi akstur án ökuréttinda en neitaði bæði ölvunarakstri og árás á lögreglumann. Fjölmörg vitni voru hins vegar að árásinni.
Á árinu 2002 var maðurinn sektaður og sviptur ökurétti fyrir ölvunarakstur. Með dómi Hæstaréttar 25. janúar 2007 var hann dæmdur í 3 mánaða fangelsi, skilorðsbundið í 2 ár, fyrir líkamsárás. Maðurinn rauf því skilorðið.