Hópur fólks, sem staðið hefur fyrir mótmælaaðgerðum í skrifstofum og útibúum Landsbankans í morgun, hefur nú yfirgefið útibú bankans að Laugavegi 77. Segir fólkið, að það sé hætt aðgerðum í bili.
Um 70 manna hópur ruddist inn í skrifstofur og afgreiðslu Landsbankans í miðborg Reykjavíkur laust eftir klukkan 9, hélt þaðan upp Laugaveg og inn í útibú bankans að Laugavegi 77. Fólkið var með kröfuspjöld og hrópaði slagorð gegn spillingu og bankakerfinu.
Lögreglan fylgdist með fólkinu en hafðist ekki að.