„Við tókum þá ákvörðun að sinna okkar skyldum við lesendur og áskrifendur og halda áfram að gefa út blað, “ sagði Kolbeinn Þorsteinsson, trúnaðarmaður blaðamanna á DV að loknum starfsmannafundi í dag.
Starfsmenn þinguðu í dag um eigin stöðu og samskiptin á ritstjórninni í kjölfar þess að Reynir Traustason, ritstjóri DV, varð uppvís að því að láta undan þrýstingi og birti ekki frétt um Sigurjón Árnason, fyrrverandi bankastjóra Landsbankans. Fréttin snerist um að Sigurjón hefði komið á fót ráðgjafafyrirtæki í húsnæði Landsbankans og vonaðist í framhaldi eftir verkefnum frá bankanum.
Í upptöku af samtali Jóns Bjarka Magnússonar, fyrrverandi blaðamanns á DV og Reynis Traustasonar, sem spiluð var í Kastljósi í fyrravöld, segir Reynir beinum orðum við Jón Bjarka að fréttin um Sigurjón verði ekki birt vegna hótana frá mönnum sem hafi framtíð blaðsins á valdi sínu. Það sé spurning um líf eða dauða blaðsins að umrædd frétt verði ekki birt. Jón Bjarki sætti sig ekki við það og sagði upp. Hann birti jafnframt fréttina á vefritinu Nei og upptakan af samtali hans við ritstjórann var spiluð í Kastljósi.
Ritstjórar DV reyndu að klóra yfir málið og gera blaðamanninn tortryggilegan. Starfsmenn funduðu um málið í gær, með og án ritstjóranna og var mikill kurr meðal starfsmanna. Einn blaðamaður sagði upp störfum vegna málsins í gær.
Reynir Traustason sendi frá sér yfirlýsingu í gærkvöld þar sem hann harmar að fyrstu viðbrögð hans hafi verið ónákvæm, og í leiðara DV í morgun bað hann almenning og starfsfólk DV afsökunar.
„Þetta dugar okkur, við lítum þannig á. Enda held ég að búið sé að segja nóg í þessu máli,“ sagði Kolbeinn Þorsteinsson, trúnaðarmaður blaðamanna á DV.