Sjómenn og útvegsmenn semja

Samningamenn sjómanna og útvegsmanna, ásamt ríkissáttasemjara að lokinni undirritun.
Samningamenn sjómanna og útvegsmanna, ásamt ríkissáttasemjara að lokinni undirritun.

Nýr kjarasamningur sjómanna og útvegsmanna var undirritaður í húsakynnum ríkissáttasemjara í dag. Samningarnir eru til tveggja ára og gilda til loka árs 2010. Eldri samningar runnu út í maí 2008.

Nýir samningar sjómanna og útvegsmanna eru í raun uppfærsla á eldri samningum og einstökum liðum í takt við það sem gerst hefur á almennum vinnumarkaði á undanförnum vikum. Þar má nefna grunnlaun eða kauptryggingu, tímakaup og annað slíkt.

Nýtt ákvæði í samningum sjómanna og útvegsmanna er greiðsla útgerða á 0,13% af öllum launum í sérstakan endurhæfingarsjóð.

Í bókunum með samningunum segir að verði veruleg hækkun á olíuverði á samningstímanum sem leiðir til þess að veiðar verði ekki stundaðar með arðbærum hætti, eru aðilar sammála um að taka upp viðræður um tímabundin breytt skiptahlutföll.

Samningurinn tekur annars vegar til Sjómannasambands Íslands, Alþýðusambands Vestfjarða, Farmanna- og fiskimannasambands Íslands og VM, félags vélstjóra og málmtæknimanna og hins vegar Landssambands íslenskra útvegsmanna.

Friðrik J. Arngrímsson, framkvæmdastjóri LÍÚ, segir að alltaf sé ánægjulegt að ljúka samningum, sem geti oft verið bæði erfiðir og tímafrekir. Hann segir vinnu við samningagerðina hafa gengið vel í haust og þakkar forystu sjómanna fyrir þeirra hlut í því að samningar náðust. 

Kjarasamningar sjómanna og útvegsmanna

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert