Þrettán Íslendingar dvelja nú í fangelsum erlendis, ýmist í afplánun eða gæsluvarðhaldi. Flestir eru á aldrinum 20 til 39 ára eða 11, einn er yngri en 20 ára og einn á sjötugsaldri. Þetta kemur fram í svari utanríkisráðherra við fyrirspurn Árna Þórs Sigurðssonar, þingmanns VG.
Umræddir fangar dveljast í fangelsum í Bandaríkjunum, Brasilíu, Danmörku, Hollandi, Spáni, Svíþjóð og Þýskalandi.
Átta af þessum 13 Íslendingum hafa hlotið fullnaðardóm sem eru frá 2 árum upp í 20 ár.
Utanríkisráðuneytið bendir í svarinu á að ekki er útilokað að fleiri íslenskir ríkisborgarar afpláni nú dóma í erlendum fangelsum þar sem aðkoma íslenskra yfirvalda að málefnum einstakra fanga helgast af vilja og ósk frá viðkomandi fanga.
Utanríkisráðherra segir aðbúnað íslenskra fanga erlendis almennt ásættanlegan. Í einstökum tilvikum hafi kvartanir þó borist frá föngum. Þær lúti helst að húsnæðishitun, hreinlæti, ofsetnum fangaklefum og mataræði.
Þá segir ráðherra að utanríkisráðuneytið leitist eftir fremsta megni við að gæta ýtrustu hagsmuna íslenskra fanga erlendis. Í þeim tilvikum sem sendiskrifstofum er tilkynnt um handtöku íslensks ríkisborgara er leitast við að tilkynna það nánustu aðstandendum án ástæðulausrar tafar sé þeim ekki þegar kunnugt um handtöku. Í upphafi er gengið úr skugga um að fanga sé tryggð lögfræðileg aðstoð og þegar þess er óskað af hálfu fanga er veitt aðstoð við útvegun lögfræðilegrar aðstoðar.
Fyrir liggja óskir frá nokkrum fanganna um flutning til Íslands til að ljúka afplánun. Þeim sem þegar hafa hlotið fullnaðardóm hefur verið svarað jákvætt af hálfu íslenskra stjórnvalda. Í umræddum tilvikum hafa erlend stjórnvöld þó ekki veitt vilyrði fyrir flutningi og hefur það því enn ekki gengið eftir.