Gylfi Arnbjörnsson forseti Alþýðusamband Íslands lýsir miklum vonbrigðum við viðbrögðum ríkisstjórnarinnar við áherslum ASÍ vegna fjárlagafrumvarpsins. Forseti og varaforseti ASÍ gengu í dag á fund oddvita ríkisstjórnarinnar til að kynna þeim kröfur ASÍ um ráðstafanir í ríkisfjármálum.
Í yfirlýsingu frá ASÍ segir að það hafi verið von forystunnar að hægt yrði að ná samkomulagi við stjórnvöld sem lagt gæti ásættanlegan grundvöll að vinnu við endurskoðun og endurnýjun kjarasamninga fyrir árin 2009 og 2010, nú strax eftir áramót en það hafi ekki gengið eftir. „Einkum strandar á vilja ríkisstjórnarinnar til að endurskoða áform um mikla skerðingu bóta elli- og örorkulífeyrisþega nú um áramótin,“ segir í yfirlýsingunni.
Einnig lýsir forysta ASÍ miklum áhyggjum sínum með afdrif frumvarps til laga um greiðsluaðlögun sem heimili niðurfærslu og skilmálabreytingu á húsnæðisskuldum heimilanna, en um efni þess er enn mikill ágreiningur.
Þessar tillögur voru lagðar fyrir oddvita ríkisstjórnarinnar í dag við dræmar undirtektir. SEgir í yfirlýsingu ASÍ að viðbrögðin séu mikil vonbrigði, en þó hafi komið fram vilji til að skoða ýmis mál áfram.