Áætlunin gengur vel

Ásmundur Stefánsson, Paul Marthias Thomsen og Petya Koeva Brooks kynna …
Ásmundur Stefánsson, Paul Marthias Thomsen og Petya Koeva Brooks kynna niðurstöðu úr viðræðum Íslands og IMF sem nú er verið að framfylgja. mbl.is/Golli

Poul Thomsen, hagfræðingur hjá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum (IMF), segir áætlun sjóðsins og íslenskra stjórnvalda, um endurreisn íslensks efnahags, ganga vel og í takt við væntingar sjóðsins. Ekki sé þó hægt að gera lítið úr því að staðan sé erfið. Sérstakur fulltrúi IMF verður með aðsetur hér frá og með næsta mánuði. Thomsen segir þá ráðstöfun vera eðlilega í ljósi þess að sjóðurinn vinni náið með íslenskum stjórnvöldum.

Thomsen segir megin markmið þeirrar áætlunar sem nú sé unnið eftir, að koma jafnvægi á gjaldeyrismarkaðinn, vera að nást. Langt sé þó í land enn þar til gjaldeyrismarkaðurinn virkar eðlilega. Ekki liggur ljóst fyrir enn hvenær gjaldeyrishöftum, sem nú eru í gildi til þess að stýra inn- og útleiðum á fjármagni, verður aflétt.

„Aðalatriðið í fyrstu var að ná tökum á gjaldeyrismarkaðnum. Eftir það er hægt að fara huga að því að afnema gjaldeyrishöftin,“ sagði Thomsen nú rétt í þessu á blaðamannafundi í utanríkisráðuneytinu við Rauðarárstíg.

Hann lagði áherslu á að vandamálin sem Ísland stæði frammi fyrir væru stór, og úr þeim mætti ekki gera lítið. „Fólk má ekki gleyma því að hér varð til neyðarástand í efnahagslegu tilliti,“ sagði Thomsen og vitnaði til atburða í byrjun október sem leiddu til hruns Glitnis, Kaupþings og Landsbankans.

Hann vildi ekki svara því sérstaklega hvort hægt væri að komast betur út úr efnahagsvandanum með öðrum gjaldmiðli en krónunni. Það væri ekki fulltrúa IMF að blanda sér í þá umræðu. Fyrst og fremst væri áherslan á að skapa stöðugan grunn til þess að vinna á.

Hann sagði enn fremur að Ísland ætti vel að geta staðið við sínar skuldbindingar sem tilkomnar eru vegna bankahrunsins. Það er að borga til baka lánin sem Ísland hefur ákveðið að taka til þess að bregðast við. En til þess að það gengi vel þyrfti að vinna markvisst samkvæmt raunhæfum áætlunum.

Thomsen, og fleiri fulltrúar, eru staddir hér á landi til þess að funda með  stjórnvöldum og fræðimönnum, og fylgjast með hvernig gengur að ná tökum á efnahagsvandanum. Thomsen kemur aftur ásamt fylgdarliði í febrúar á næsta ári og fer þá ítarlega yfir stöðu efnahagsmála.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert