Samþykkt var á fundi borgarráðs Reykjavíkur í dag að fresta afgreiðslu fjárhagsáætlunar fyrir næsta ár. Fram kom í bókun meirihluta Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks, að síðari umræða og afgreiðsla fjárhagsáætlunar fyrir árið 2009 fari fram á fundi borgarstjórnar 6. janúar.
Tillagan var samþykkt með 5 atkvæðum, atkvæðum meirihlutans og atkvæði fulltrúa VG en aðrir fulltrúar sátu hjá. Ólafur F. Magnússon, sem situr í borgarráði sem áheyrnarfulltrúi F-lista, lagði fram bókun þar sem hann mótmælir ólýðræðislegum og óvönduðum vinnubrögð meirihlutans í borgarstjórn. Þá sakar hann fulltrúa Samfylkingar og VG í borgarráði um að taka þátt í þeirri valdníðslu sem felist í að sniðganga borgarráð og borgarráðsfulltrúa F-listans í allri undirbúningsvinnu að fjárhagsáætlun borgarinnar.
Fulltrúar Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks létu bóka, að öllum reglum um málsmeðferð fjárhagsáætlunar hafi verið fylgt. Þá hafi Ólafi verið boðinn aðgangur að öllum gögnum og upplýsingum í samræmi við hans starfsskyldur og fulltrúar F-listans í fagráðum hafi haft trúnaðaraðgang að áætlunum sviðanna í samræmi við reglur um afgreiðslu fjárhagsáætlunar.
Gert er ráð fyrir að borgarráð fjalli um fjárhagsáætlunina á á laugardag og fyrri umræða um áætlunina verði í borgarstjórn Reykjavíkur mánudaginn 22. desember. Þá verður efni frumvarpsins jafnframt kynnt.