Ákærður fyrir brot á þagnarskyldu

Ákæra efnahagsbrotadeildar ríkislögreglustjóra á hendur Jafet Ólafssyni, fyrrverandi framkvæmdastjóra VBS fjárfestingabanka, var þingfest í héraðsdómi Reykjavíkur í morgun. Jafet er ákærður fyrir brot gegn þagnarskyldu í starfi sínu sem stjórnarmaður og starfsmaður hjá VBS fjárfestingarbanka.

Fjármálaeftirlitið kærði í haust, Jafet Ólafsson til lögreglunnar fyrir að hafa afhent Sigurði G. Guðjónssyni, framkvæmdastjóra Fjárfestingarfélagsins Grettis, hljóðupptöku af samtali Jafets og Geirs Zoëga árið 2006.

Í samtalinu ræddu þeir Jafet og Geir um viðskipti með bréf í Tryggingamiðstöðinni til umbjóðanda Sigurðar, Fjárfestingafélagsins Grettis. Grettir hugðist kaupa af Geir 5% hlut í Tryggingamiðstöðinni og var búið að semja um verð fyrir hlutina á föstudegi og ákveðið að ganga frá kaupunum á mánudegi klukkan 15, fyrir milligöngu Jafets og Verðbréfastofunnar.

Ekkert varð af kaupunum, en Geir Zoëga hringdi í Jafet rétt fyrir undirritun og sagðist vera nýkominn af fundi með öðrum kaupendum og þeir hafi handsalað kaup á hlutnum. Þetta samtal var hljóðritað.

Sigurði G. Guðjónssyni þótti slæmt að kaupin gengju ekki eftir og taldi ennfremur að yfirtökuskylda hefði myndast við hinn kaupsamninginn þar sem kaupendurnir áttu þegar stóran hlut í Tryggingamiðstöðinni. Hann skrifaði erindi til Fjármálaeftirlitsins þess efnis og fékk hljóðupptökuna frá Jafeti erindinu til stuðnings. Geir Zoëga taldi Jafet Ólafsson hafa brotið á sér trúnað með afhendingu upptökunnar og kvartaði til fjármálaeftirlitsins sem kærði Jafet til lögreglunnar.

Í ákæru efnahagsbrotadeildar ríkislögreglustjóra, sem þingfest var í héraðsdómi í morgun, er Jafet ákærður fyrri brot gegn þagnarskylduákvæðum laga um fjármálafyrirtæki, Jafet hafi, án heimildar, gefið Sigurði G. Guðjónssyni, upplýsingar um ástæður þess að Geir Zoëga hætti við að eiga viðskipti við Gretti með bréf í Tryggingamiðstöðinni og upplýsingar um hvaða aðila Geir hefði selt bréfin. Þá hefði Jafet í kjölfarið afhent Sigurði G. Guðjónssyni hljóðupptöku af símtali Jafets við Geir Zoëga þar sem umræddar trúnaðarupplýsingar komu fram.

Brot gegn þagnarskylduákvæðum laga um fjármálafyrritæki varða sektum eða fangelsi allt að tveimur árum.

Jafet Ólafsson mætti við þingfestingu málsins í morgun og tók sér frest fram yfir áramót til að svara ákæruliðum.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert