Annir á Alþingi og ósofnir þingmenn

Enn er óljóst hvenær Alþingi fer í jólafrí. Fjárlög bíða óafgreidd og talið er að þau komist til umræðu í fyrsta lagi á laugardag en að öllum líkindum á mánudag. Þá fer lokaatkvæðagreiðsla annað hvort fram aðfaranótt Þorláksmessu eða á skötuátsdeginum sjálfum. Aðfangadagur er a.m.k. enn sem komið er ekki í umræðunni.

Nefndir þingsins vinna hörðum höndum við að ljúka við þau mál sem nú liggja fyrir og fregnir herma að margir þingmenn fái takmarkaðan svefn þessa dagana. Fundir standa fram á nótt og hefjast að nýju snemma að morgni. 

Umræður í þinginu einkennast öðru fremur af því að stjórnarandstæðingar gagnrýna niðurskurð í ýmsum málaflokkum og ráðherrar og stjórnarliðar taka undir með að slæmt sé að skera niður en leggja áherslu á að það verði að gera við þessar aðstæður.  Kalla þeir jafnframt eftir tillögum frá stjórnarandstöðunni um hvar eigi frekar að skera niður.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert