Gert er ráð fyrir að færeyska lögþingið samþykki 300 milljóna danskra króna gjaldeyrislán til Íslendinga á morgun. Fyrstu tvær umræður um frumvarp um lánið fóru fram í gær en enginn tók til máls utan fjármálaráðherra og samþykkt var einróma að vísa frumvarpinu áfram til þriðju umræðu án þess að það færi til fjárlaganefndar þingsins.
Landsstjórn Færeyja samþykkti í október að veita Íslendingum lán vegna efnahagshrunsins hér. Allir stjórnmálaflokkar í Færeyjum stóðu að þeirri samþykkt og samkvæmt upplýsingum mbl.is varð það einnig að samkomulagi milli leiðtoga flokkanna að engin umræða yrði um málið. Það er til að leggja áherslu á samhug með Íslendingum og að um sameiginlegt mál flokkanna sé að ræða.
Fram kom í færeyska útvarpinu, að lánið mun bera 5,25% vexti fyrsta árið en ekki verið greitt af höfuðstólnum fyrstu fimm árin. Eftir þann tíma verður gert samkomulag um endurgreiðsluna.