Bandaríska sendiráðinu í Reykjavík barst í gær umslag sem innihélt hvítt duft. Slökkvilið mætti á staðinn og fjarlægði pakkninguna sem síðan var farið með á sýklarannsóknadeild Landspítala í Ármúla.
Fleiri bandarísk sendiráð víða í Evrópu hafa fengið viðlíka sendingu. Niðurstöður rannsókna á þeim sýnum sem þegar hafa fengist sýna að duftið er hættulaust.
Kathy Eagen, tengslafulltrúi í sendiráðinu, segir að þegar umslagið barst hafi strax verið haft samband við lögreglu sem hafi mætt á staðinn. „Við höfum enn ekki fengið niðurstöðu um hvað þetta var,“ sagði Eagen í samtali við mbl.is og ekki væri ljóst hvenær niðurstaða fengist en vonandi á morgun. Hún benti á að önnur bandarísk sendiráð hefðu fengið slík umslög og duftið í þeim hefði reynst hættulaust.
Eagen segir að eftir því sem næst verði komist sé þetta í fyrsta sinn sem bandaríska sendiráðið í Reykjavík fær hvítt duft sent í umslagi.
Samkvæmt upplýsingum lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu eru viðhafðar ákveðnar varúðarráðstafanir í tilfellum sem þessum. Slökkvilið hafi séð um að fjarlægja sendinguna og fara með hana á sýklarannsóknadeild. Ekki er ljóst hvenær niðurstaðna rannsókna er að vænta, að sögn lögreglu.