Loðnuvertíð eftir áramót er í óvissu. Talið er að loðnustofninn sé í lægð og hefur Hafrannsóknastofnun ekki fundið nægilegt magn af loðnu til þess að mæla með upphafsaflaheimildum á vertíðinni í vetur en henni lýkur venjulega á útmánuðum.
Þá fannst ekkert af loðnu sem ætti að bera uppi veiðina haustið og veturinn 2009-2010 í leiðangri nýverið. Hið jákvæða við loðnurannsóknirnar nú er hins vegar að í haust fannst talsvert af loðnuseiðum, sem koma inn í veiðina á vertíðinni 2010-2011.
Vísbendingar eru um að þorskstofninn sé að braggast. Fiskifræðingar vilja þó ekki enn slaka á klónni hvað varðar aukna veiði, enda markmiðið með uppbyggingu stofnsins enn ekki í höfn. Þeir telja einnig meiri rannsóknir nauðsynlegar áður en ráðlegt sé að auka þorskaflann. Meta þurfi öll fyrirliggjandi gögn um stofninn og bíða þurfi niðurstöðu umfangsmeiri stofnmælingar í mars til að sjá betur hver hin raunverulega aukning á hrygningarstofni sé.
Jóhann Sigurjónsson, forstjóri Hafrannsóknastofnunarinnar, segir að í haustmælingum á botnfiski hafi komið í ljós að heldur meira hafi verið af loðnu í maga þorsks en þegar minnst var fyrir nokkrum árum. Hins vegar hafi magn loðnuseiða í mælingum í haust takmarkað spágildi um hvað verður þegar árgangurinn ætti að koma inn í veiðina eftir tvö ár þótt mikil mergð seiða sé alltaf jákvæð vísbending.