Mótmæli halda áfram

Öryggisverðir í Fjármálaeftirlitinu neituðu að hleypa inn nokkrum tugum mótmælenda sem voru samankomnir þar klukkan tíu í morgun.  Tveir til þrír einstaklingar tóku þá steina og börðu þeim við rúðu í útidyrahurðinni. Eftir að þeir höfðu brotist inn um ytri dyr voru innri dyrnar brotnar upp líka. Fólkið sneri þó við áður en lögreglumenn létu til skarar skríða

Í yfirlýsingu sem hópurinn dreifði segir að Fjármálaeftirlitið hafi brugðist skyldu sinni um aðhald og eftirlit með bönkunum. Stjórn þess ætti að víkja. Ingvar Þórisson, einn mótmælenda, segir að meiningin hafi verið að standa að friðsamlegum mótmælum. Þegar dyr Fjármálaeftirlitsins hafi verið lokaðar og læstar hafi það orðið til þess að einhverjir hafi farið að brjóta rúður. Þegar frést hafi af sérsveitinni hafi fólk ákveðið að yfirgefa staðinn enda sé það ekki í stríði við lögregluna.

Eftir Fjármálaeftirlitið var förinni haldið í útibú Glitnis steinsnar hjá. Þar fékk hópurinn kaffi og hrópaði slagorð sín, meðal annars að bankinn ætti að borga sínar skuldir sjálfir. Þá var lesið úr auglýsingabæklingum bankans við mikinn fögnuð viðstaddra.

Hópur lögreglumanna sem vinnur að því að hafa eftirlit með mótmælunum stóð álengdar en enginn var  handtekinn vegna málsins

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert