Hæstiréttur hefur staðfest úrskurð Héraðsdóms Reykjaness um að Lithái, sem handtekinn var á Keflavíkurflugvelli í byrjun vikunnar, sæti gæsluvarðhaldi til morgundagsins. Maðurinn var með talsvert af munum í fórum sínum þegar hann var handtekinn og telur lögreglan að um sé að ræða þýfi, sem átti að reyna að flytja úr landi.
Fram kemur í úrskurði héraðsdóms, að upphaf málsins megi rekja til þess að erlendur maður kom með umslag merkt „The Criminal Department" og afhenti lögreglumanni fyrir utan lögreglustöðina á Hverfisgötu í Reykjavík og hljóp síðan á brott. Í bréfinu var að finna upplýsingar um fjóra aðila sem væru á leiðinni úr landi með flugi á nánar tilgreindum dögum.
Við þýðingu bréfsins kom fram að það fólk sem, nefnt er í bréfinu hafi stundað innbrot og þjófnaði á höfuðborgarsvæðinu að undanförnu og ætlaði með þýfið úr landi í farangri með flugi út. Þá var vakin sérstök athygli á karlmanni og konu, sem ætluðu að senda bifreið með gámi út og í bifreiðinni og gámnumværi þýfi en reikna mætti jafnframt með að þau færu með þýfi úr landi.
Maðurinn, sem nú er í gæsluvarðhaldi, var síðan handtekinn í Leifsstöð 14. desember þegar hann var að fara úr landi eins og vísað hafði verið til í bréfinu. Við skoðun á farangri hans kom í ljós talsvert af munum. Maðurinn sagðist hafa keypt munina og andvirði þeirra væri 4-500 þúsund krónur.
Lögreglan segir hins vegar að rökstuddur grunur leiki á að maðurinn sé viðriðinn umfangsmikla og skipulagða þjófnaðastarfsemi og innbrot og hafi ætlað að koma þýfi úr landi. Verið sé að rannsaka tengsl mannsins við hugsanlega vitorðsmenn á Íslandi og erlendis auk annarra atriða. Þá kemur fram í úrskurðinum, að lögreglan vinni að því hörðum höndum að staðsetja hina ætluðu bifreið og gám.