Héraðsdómur Austurlands dæmdi í dag starfsmannaleiguna Nordic Construction Line, (NCL) sem skráð er í Lettlandi en í eigu GT verktaka í Hafnarfirði, til að greiða 12 fyrrverandi starfsmönnum við Kárahnjúka samtals rúmar þrjár milljónir króna vegna launa á uppsagnarfresti og annarra vangoldinna launa.
Deilur hafa einkennt samskipti GT verktaka og starfsmannaleigunnar NCL, sem sögð er í þeirra eigu, við verkalýðsfélög og Vinnumálastofnun vegna erlendra starfsmanna við Kárahnjúka.
Forsaga málsins var sú að í október 2007 sendu lettnesku starfsmennirnir tölvupóst til AFLs Starfsgreinafélags þar sem þeir töldu sig ekki fá greidd rétt laun frá vinnuveitendum sínum, sem þeir sögðu þá vera GT verktaka. Af stað fór mikil vinna hjá starfsmönnum AFLs og lögmanni félagsins, auk lögreglu, enda voru ákveðin brot kærð þangað og hafa verið í meðförum hennar síðan.
Í byrjun árs 2008 náðist samkomulag utan réttar milli aðila um hluta ágreiningsefnisins. Það fól í sér að mönnunum 12 og einum til viðbótar voru greiddar nettó rúmar 4 milljónir króna vegna launa í byrjun október 2007 og á uppsagnarfresti. Sá ágreiningur sem þá stóð eftir var síðan borinn undir dómstóla.
Lögmaður AFLs, Eva Dís Pálmadóttir hdl., stefndi fyrirtækjunum í mars 2008 vegna brota á kjarasamningum. Brotin fólu meðal annars í sér að starfsmenn voru látnir kvitta fyrir móttöku hærri launa en þeir í raun fengu og féllst héraðsdómur Austurlands á málatilbúnað starfsmannanna hvað þetta atriði varðar.
Kröfur fyrir dómi í málunum 12 voru þríþættar.
Í öllum málunum var kjarni ágreiningsins sá að starfsmennirnir héldu því fram að þeir hefðu verið látnir kvitta fyrir móttöku hærri útborgunargreiðslna í byrjun september og byrjun október en þeir raunverulega höfðu fengið. Taldi dómurinn sannað með framlagningu gagna og framburði vitna að svo hefði verið og féllst að fullu á kröfur mannanna vegna þessa, sem samtals námu tæpum tveimur milljónum króna.
Í þremur málanna var líka ágreiningur um laun á uppsagnarfresti og hvort starfsmönnum sem þar um ræddi hefði verið rétt að leggja niður störf sín við þær aðstæður sem upp voru komnar. Féllst dómurinn á sjónarmið starfsmannanna og tók að fullu til greina kröfur þeirra um laun á uppsagnarfresti sem samtals námu rúmlega 1.100 þúsund krónum.
Að lokum var líka uppi ágreiningur í þremur málanna um það hvort ráðningartími þriggja starfsmanna hefði verið u.þ.b. 1,5 mánuður eða 3 mánuðir. Sýknað var af kröfum er varða þennan lið.
Þannig unnust 9 af málunum 12 að fullu en 3 þeirra að hluta.
Starfsmönnunum var að auki dæmdur málskostnaður upp á samtals eina milljón króna.
Lögmaður AFLs segir að dómurinn sýni hve erfitt það geti verið fyrir starfsmenn að henda reiður á hver raunverulegur vinnuveitandi þeirra er. Jafnframt sé ljóst að dómarnir geti gert alla innheimtu krafna og eftirfylgni þeirra örðugri en verið hefði ef GT verktakar hefðu verið dæmdir til greiðslu. Lögmaðurinn tekur þó fram að alls óvíst sé að til einhverra innheimtuaðgerða þurfi að koma, en vel geti verið að eigendur og stjórnendur NCL, sem eru þeir sömu og eiga og stjórna GT verktökum, hlutist til um að fyrirtæki þeirra greiði þær kröfur sem það hefur verið dæmt til að greiða.