Ögmundur Jónasson þingmaður VG segist heyra það úr óhugnalega mörgum áttum að forstöðumenn heilbrigðisstofnana hafi verið settir í fréttabann og geti því ekki skýrt frá afleiðingum þess að framlög hafi verið skorin niður í fjárlagafrumvarpi ríkisstjórnarinnar. Hann segir að opinská umræða um hvað sé að gerast í þjóðfélaginu núna sé nauðsynleg. Þá þurfi forstöðumenn ríkisstofnana að tjá sig og upplýsa þingið um stöðuna. Hann segist ekki geta fullyrt þetta en sé þetta rétt sé það tilræði við velferðarkerfið og lýðræðið í landinu.
Ögmundur Jónasson segir mjög alvarlegt að ríkisstjórnin velji að skera niður í velferðarkerfinu til að rétta af halla á ríkissjóði. Ögmundur segir að ríkisstjórnin eigi að beina öllum kröftum sínum að því að undirgangast eins litlar skuldbindingar erlendis og mögulegt er vegna bankanna. Þar séu miklu stærri upphæðir í húfi en hún sé að spara í velferðarkerfinu. Þjóðfélagsumræðan eigi að snúast um hallann á þjóðarbúinu í heild sinni.Guðlaugur Þór Þórðarson heilbrigðisráðherra gaf ekki kost á viðtali í morgun.