Hátt í fjögur hundruð manns fengu í gær úthlutað í sérstakri jólaúthlutun sem er samstarfsverkefni Mæðrastyrksnefndar, Hjálparstarfs kirkjunnar og Reykjavíkurdeildar Rauða kross Íslands sem staðið hefur alla þessa viku. Samkvæmt upplýsingum frá Ragnhildi G. Guðmundsdóttur, formanni stjórnar Mæðrastyrksnefndar, eru aðeins tvær jólaúthlutanir eftir, en þær verða á morgun milli kl. 10 og 16 og nk. mánudag milli kl. 11 og 14 í Borgartúni 25. Aðspurð segir hún að verið sé að úthluta mat, gjafakortum, leikföngum, nýjum jólabókum handa börnum og ýmsum smávörum.
Að sögn Ragnhildar hafa þeir sem sækja um jólaúthlutun skipt hundruðum á hverjum degi alla þessa viku. Segir hún nokkuð um það að fólk sem ekki hafi skráð sig fyrirfram mæti og sækist eftir aðstoð. Spurð hvort félögin þrjú eigi nóg af mat og öðrum þeim vörum sem verið sé að úthluta svarar Ragnhildur því játandi og tekur fram að engum sé vísað frá og að enginn þurfi að fara tómhentur frá úthlutun. Félögin þrjú hafa sl. ár átt með sér samstarf um jólaúthlutun. Á vef Hjálparstarfs kirkjunnar má sjá að um jólin 2007 voru afgreiddar alls 1.597 umsóknir um aðstoð, en um jólin 2006 voru þær 1.647.