Birkir J. Jónsson, þingmaður Framsóknarflokksins, kallaði eftir stjórnarliðum í umræðum um ráðstafanir í ríkisfjármálum á Alþingi í dag og vildi fá tækifæri til að spyrja formenn fagnefnda þingsins út í niðurskurð sem að þeim lýtur.
Ræðutími Birkis dugði hins vegar ekki til að ná stjórnarliðunum í þingsal og velti hann því upp hvort hugsanlega ætti að fresta umræðunni.
Birkir þurfti því að sætta sig við að flytja sína ræðu yfir hausamótum nokkurra stjórnarandstæðinga og Péturs H. Blöndal, þingmanns Sjálfstæðisflokks.