Líflegt var í miðborginni í gærkvöldi en jólaverslunin hefur gengið ágætlega þrátt fyrir kreppuna, að sögn kaupmanna. Í Kringlunni er aðsókn svipuð og í fyrra og segja kaupmenn sölu ganga ágætlega. Sömu sögu er að segja úr Smáralind.
„Við erum að fá það sem við köllum Hennes & Mauritz-áhrifin, þau eru öll hér á landi núna,“ segir Henning Freyr Henningsson, framkvæmdastjóri Smáralindar, og vísar í að jólaverslun landans hafi nú færst heim. Að kaupa íslenskt virðist líka vera mörgum ofarlega í huga og verður starfsfólk hönnunarverslunarinnar Kraum vel vart við slíkt. Gilbert Ó. Guðjónsson úrsmiður segir sömu sögu, en hjá honum er það íslensk úrahönnun sem heillar ferðamenn.