Jón Ásgeir: Ekki sama hver á í hlut

Hjónin Ingibjörg Pálmadóttir og Jón Ásgeir Jóhannesson.
Hjónin Ingibjörg Pálmadóttir og Jón Ásgeir Jóhannesson. mbl.is/Sverrir

Jón Ásgeir Jóhannesson, stjórnarformaður Baugs í Bretlandi, er ósáttur við þá ákvörðun setts ríkislögreglustjóra að ákæra hann fyrir brot á skattalögum.

Hann bendir á að þessi rannsókn sé enn einn anginn af Baugsmálinu og nú sé ákært í þriðja sinn. Meginreglan íslenska réttarkerfisins sé að gefa út aðeins eina ákæru í sama máli. Nú eigi að fara á eftir honum og fleiri einu sinni enn með það að markmiði að koma á hann höggi. Það komi sér illa núna þegar hann vinni að því að tryggja áframhaldandi rekstur Baugs og bjarga verðmætum félagsins.

„Það lítur út fyrir að ekki sé sama hver á í hlut þegar gefin er út ákæra,“ segir Jón Ásgeir. Þeir sem sakaðir voru um að skulda meiri skatta en hann og komu að málum sem hann er ákærður fyrir sleppi. Það sýni að málatilbúnaðurinn stjórnist af geðþótta ákæruvalds.

Hann segist þegar hafa gert upp sínar meintu skuldir við ríkisskattstjóra. Samkvæmt úrskurði yfirskattanefndar, frá síðasta sumri, hefði hann meira að segja fengið endurgreitt vegna oftekinna skatta. Þessi endurálagning sé nú til meðferðar í réttarkefinu. Ef taka eigi mark á dómi sem féll í máli Jóns Ólafssonar sé hann búinn að taka út sína refsingu.

„Ólíkt sumum öðrum athafnamönnum hef ég alltaf borgað mína skatta og staðið við skyldur mínar á Íslandi. Það má meðal annars sjá með því að taka saman þær skattgreiðslur sem ég hef innt af hendi síðustu árin,“ segir Jón Ásgeir Jóhannesson.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert