Prófessorar við Háskóla Íslands eru ósáttir við þann niðurskurð sem boðaður hefur verið á fjárveitingum HÍ. Hefur Félag prófessora við ríkisháskóla mótmælt niðurskurði fjárveitinga og þeim tillögum til niðurskurðar sem unnið er að innan skólans.
Í tilkynningunni segir að HÍ veiti þegar hagkvæmustu menntun sambærilegra námsleiða við íslenska háskóla samkvæmt nýlegri skýrslu Ríkisendurskoðunar og hafi yfir að ráða kennurum og sérfræðingum í fremstu röð.
„Boðaður niðurskurður ræðst helst gegn rannsóknum og framhaldsnámi við skólann, sem eru mikilvægustu vaxtarbroddar háskólastarfseminnar í landinu. Þá beinist boðaður niðurskurður helst gegn starfskjörum prófessora sem bera höfuðábyrgð á kjarnastarfsemi skólans, sem eru rannsóknir og kennsla.
Félag prófessora við ríkisháskóla krefst þess að leitað verði allra leiða til að verja og hlúa að kjarnastarfsemi Háskóla Íslands,“ segir í tilkynningunni.