Norrænu ríkin vilja Mugabe frá

Öll spjót standa að Robert Mugabe, forseta Simbabve, þessa dagana.
Öll spjót standa að Robert Mugabe, forseta Simbabve, þessa dagana. Reuters

Norrænu ríkin, Ísland, Danmörk, Finnland, Noregur og Svíþjóð, fóru fram á það í dag að Robert Mugabe, forseti Simbabve, fari frá völdum og segja hann bera ábyrgð á skálmöldinni sem ríkir í landinu.

„Utanríkisráðherrar Norðurlandanna, Noregs, Svíþjóðar, Finnlands, Danmerkur og Íslands lýsa yfir hneykslan á hinu alvarlega ástandi í Simbabve, sem fer versandi dag frá degi. Í yfirlýsingu sem ráðherrarnir sendu frá sér í dag segir að þjáningar íbúa landsins hafi enn aukist þar sem kólerufaraldur gengur nú yfir. Þrátt fyrir að lækning sé til við kóleru hafi fjöldi manna látið lífið.

Norðurlöndin segja nauðsynlegt að óstjórn Roberts Mugabe ljúki og að bundinn verði endir á virðingarleysi fyrir lýðræði og mannréttindum þar sem þessi gildi séu forsenda stuðnings Norðurlandanna við löndin í sunnanverðri Afríku.

Í yfirlýsingu utanríkisráðherrana segir að yfirvöld í Simbabve beri ein ábyrgð á því skelfilega ástandi sem nú ríki í landinu. Ofbeldi og hótunum í garð þeirra sem gagnrýna yfirvöld í Simbabve linni ekki. Hvarf mannréttindabaráttukonunnar Jestinu Mukoko og handtaka félaga í stjórnmálasamtökunum MDC (Hreyfingu fyrir lýðræðislegum breytingum) séu skelfileg dæmi um mannréttindabrot. Norðurlöndin lýsa áhyggjum sínum af örlögum Mukoko og annarra sem horfið hafa og krefjast þess að mannréttindi séu virt í Simbabve.

Þá skora norrænu ráðherrarnir á stjórnarflokkinn Zanu-PF og MDC að reyna til þrautar að ná samkomulagi um myndun stjórnar, en ekkert hefur þokast í þá átt á þeim þremur mánuðum sem liðnir eru frá því að flokkarnir lýstu vilja sínum til þess. Segja ráðherrarnir stjórnvöld í Simbabve hafa dregið úr líkum á samkomulagi, m.a. með einhliða skipan héraðsstjóra og staðfesting á skipan seðlabankastjóra sem séu ekki til þess fallnar að auka traust.

Norðurlöndin ítreka mikilvægi aðkomu Þróunarsamtaka í sunnanverðri Afríku (SADC), Afríkubandalagsins og Sameinuðu þjóðanna að lausn ástandsins í Simbabve. Norðurlöndin ítreka vilja sinn til að styðja við efnahagslega og samfélagslega uppbyggingu í Simbabve þegar trúverðug stjórn hefur verið mynduð og sýnt þykir að staðið verði við grundvallarreglur alþjóðasamfélagsins, einkum hvar varðar virðingu fyrir mannréttindum," að því er segir í yfirlýsingu utanríkisráðherranna

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka