Segja frumvarp alvarlega gallað

Grétar Jónasson, framkvæmdastjóri Félags fasteignasala.
Grétar Jónasson, framkvæmdastjóri Félags fasteignasala.

Á nýju frumvarpi viðskiptaráðherra um sölu fasteigna, fyrirtækja og skipa eru svo alvarlegir ágallar að furðu sætir, að því er segir í yfirlýsingu frá Félagi fasteignasala.

„Vinnubrögð við samningu þess, að ekki sé talað um innihald, er skólabókardæmi um þá gagnrýni, sem Lögmannafélag Íslands gerði hinn 5. desember sl. með bréfi til forseta Alþingis við þau óvönduðu vinnubrögð sem einkenna mörg lagafrumvörp um þessar mundir. Ágallar á frumvarpi viðskiptaráðherra eru svo miklir að Neytendasamtökin, Húseigendafélagið og Félag fasteignasala standa sameiginlega að gagnrýni á frumvarpið enda felur það, að þeirra mati, í sér afdrifaríka skerðingu á neytendavernd verði það óbreytt að lögum.
 
Markmið frumvarps viðskiptaráðherra eins og þeim er lýst í inngangi þess eru góð og gild. Hins vegar er innihaldið í litlu samræmi við markmiðin. Á fjölmennum félagsfundi í Félagi fasteignasala í gær, fimmtudag, lýstu félagsmenn miklum áhyggjum af frumvarpinu og þeim óvönduðu og óforsvaranlegu vinnubrögðum sem einkenna það. Sé vandað til verka felur löggjöf um fasteignakaup í sér eina mikilvægustu neytendaverndina. Það hefur sjaldan ef nokkurn tímann áður verið jafnbrýnt en einmitt nú að slá skjaldborg um hagsmuni kaupenda og seljenda húsnæðis.
 
Stjórn Félags fasteignasala leggur þunga áherslu á að alþingismenn kynni sér frumvarp viðskiptaráðherra um sölu fasteigna, fyrirtækja og skipa til hlítar og tryggi að nauðsynlegar og vandaðar breytingar verði gerðar á frumvarpinu sem tryggi mikilvæga hagsmuni neytenda. Fasteignakaup geta varðað aleigu fólks og ríka hagsmuni allra landsmanna. Með núverandi frumvarpi eru þessir hagsmunir fyrir borð bornir með afdrifaríkum og alvarlegum hætti,"að því er segir í yfirlýsingu.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert