Þörf umræða um gjaldmiðil

AP

Danski hagfræðingurinn Poul Mathias Thomsen, hefur undanfarna daga fundað með fræðimönnum, stjórnmálamönnum og embættismönnum þar sem staða efnahagsmála hefur verið rædd. Samkvæmt heimildum Morgunblaðsins lögðu Thomsen og aðrir fulltrúar IMF áherslu á að fá að ræða við þá sem gagnrýnt hafa stefnu sjóðsins og aðgerðaáætlunina sem unnið er eftir. Var meðal annars rætt við íslenska fræðimenn á fundi í Þjóðmenningarhúsinu seinni partinn á fimmtudag.

Thomsen segist gera sér grein fyrir að mikil umræða fari fram í landinu um hvað gjaldmiðil eigi að nota á Íslandi til framtíðar. Þetta sé þörf umræða og hana þurfi að leiða til lykta. „IMF hefur ekki skoðun á því hvort taka eigi upp nýjan gjaldmiðil einhliða, eða með öðrum hætti. Það er umræðuefni sem er IMF óviðkomandi. Við einbeitum okkur fyrst og fremst að því að horfa fram á veginn og vinna að áætluninni. Það hvort nauðsynlegt sé að breyta um gjaldmiðil tengist ekki áætluninni sem unnið er eftir þar sem það er ekki hluti af skammtímaverkefnunum sem við erum að eiga við.“

Aðspurður hvort krónan sem slík sé sjálfstætt efnahagsvandamál, eins og ýmsir hafa sagt, segir Thomsen það ekki vera IMF að leiða umræðu um það mál og komast að niðurstöðu. Framfylgd áætlunarinnar sem fyrir liggur sé það sem öllu skiptir. „Á næstu misserum þarf að horfa til þess, hvert sé rétt verðgildi á krónunni. Það þarf að finna það og það gerist aðeins með því að koma á stöðugleika. Umræðan um gjaldmiðilinn er mjög áhugaverð og rökræðan um málið beinskeytt, eins og ég hef gert mér grein fyrir. Eins og áður sagði, þá hefur IMF ekki skoðun á þessu máli heldur er fyrst og fremst horft til þess að vinna eftir áætluninni. Hún gerir ráð fyrir því að koma á stöðugleika á gjaldeyrismarkaði, áður en til annarra aðgerða er beinlínis gripið. Það er það sem við erum að einbeita okkur að.“

Íslandsaðstoðin annars eðlis en önnur mál

„Gagnrýnin á starf Alþjóðagjaldeyrissjóðsins í efnahagsniðursveiflum annars staðar í heiminum hefur stundum átt rétt á sér, og stundum ekki að mínu mati,“ segir Poul Mathias Thomsen. Hann segir stöðu Íslands nú ekki vera sambærilega við önnur mál sem Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn hefur komið nálægt. Ólíkt öðrum aðstoðaráætlunum sjóðsins, þar á meðal í Asíu á níunda áratugnum og Argentínu árið 2000 og 2001, þá miðast aðstoðin á Íslandi við að ná tökum á „bráðri neyð“. „Það sem gerðist á Íslandi er frábrugðið því sem hefur gerst annars staðar. Á mjög skömmum tíma fór staða ríkissjóðsins úr því að vera jákvæð í að vera mjög neikvæð. Þetta gerðist á einni nóttu, svo að segja. Þess vegna miða allar aðgerðir okkar við það að ná lágmarksstöðugleika áður en hægt er að taka frekari uppbyggingarskref. Vandinn hér er bráðavandi sem þurfti að bregðast við með mjög róttækum aðgerðum.“

Thomsen segist vel geta viðurkennt að hluti af gagnrýni sem komið hefur fram á sjóðinn vegna aðgerða í Asíu og víðar sé eitthvað sem sjóðurinn hefur lært af. Nú reyni hins vegar mjög á hæfni starfsfólks sjóðsins þar sem staða mála í heiminum sé slæm.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert