Um 150 milljarða bakreikningur

Reuters

Útlit er fyrir að um 150 milljarðar króna falli á íslenska skattgreiðendur vegna uppgjörs þrotabús Landsbankans. Kröfuhafar á bankann, aðrir en innstæðueigendur, geta ekki búist við að fá greitt. Þetta var opinberað nýlega á fundi skilanefndar bankans með 8-10 hópum kröfuhafa.

Takist ekki að selja eignir fyrir innlánum bankans munu íslenska ríkið, Holland og Bretland tapa fé vegna trygginga á innistæðum á Icesave-reikningunum í útibúum bankans. Munurinn gæti numið ríflega þrjú hundruð milljörðum króna og áðurnefndir 150 milljarðar lenda þá á íslenska ríkinu. Þetta staðfestir Lárus Finnbogason, formaður skilanefndar Landsbankans, en segir tölurnar þó óljósar. „Sérstaklega þegar litið er til eignanna. Við höfum sett upp áætlanir. Seldum við allt á brunasölu núna fengjust sennilega innan við 50% af því sem hugsanlega fengist biðum við í fimm ár.“

Hann vill ekki fara nákvæmlega yfir þær tölur sem nefndar voru á fundinum með kröfuhöfum. „Við báðum kröfuhafana að skrifa undir yfirlýsingu um að upplýsingarnar væru í trúnaði. Við verðum að halda þann trúnað.“

Vilja neyðarlögunum hnekkt

Lárus segir viðbúið að kröfuhafar fari í mál við ríkið til þess að hnekkja neyðarlögunum sem sett voru í október. Þau færðu þá aftar innlánseigendum; þ.e. innstæðutryggingasjóðum landanna þriggja, í forgangsröðinni að fjármununum í bönkunum. „Þeir hafa ekki hótað því ennþá, nei,“ segir hann. „Það mun örugglega verða síðar.“

Hann segir að kröfuhöfum hafi átt að vera ljóst í hvað stefndi. Í skýrslu Alþjóðagjaldeyrissjóðsins, IMF, frá því í nóvemberlok hafi staðið skýrum stöfum að ekki væru líkur á að eignir Landsbankans dygðu fyrir innstæðum. „Hafi þeir lesið skýrsluna, sem þeir hafa örugglega gert, átti þeim að vera þetta ljóst.“

Næsti fundur með kröfuhöfum verður seinni hluta janúarmánaðar.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert