Undirbúa ný fjárlög eftir áramót

Geir H. Haarde forsætisráðherra segir að ríkisstjórnin þurfi að hefja undirbúning fjárlaga fyrir árið 2010, strax eftir áramótin. Þá er gert ráð fyrir því að hún eigi að skila mun minni fjárlagahalla. Fjárlagafrumvarp ríkisstjórnarinnar var sagt blóðugt þrátt fyrir eitthundrað og fimmtíu milljarða halla og ljóst að verkefnið verður æði vandasamt á næsta ári. Árið 2012 er síðan gert ráð fyrir hallalausum fjárlögum og árið 2011 verður jafnframt byrjað að greiða af láninu til Alþjóða gjaldeyrissjóðsins.

Geir segir ríkisstjórnina hafa gert ráð fyrir því frá byrjun að ríkissjóður þyrfti að ná jöfnuði og síðan afgangi á árunum 2012 til 13.

Geir  segir að það þýði að það þurfi að byrja strax eftir áramótin í undirbúningi fyrir fjárlögin 2010 og skoða alla hluti upp á nýtt og gera sér grein fyrir því hvar hægt verði að ná fram sparnaði með lagabreytingum eða afla nýrra tekna.

Hann segir ekki tímabært að ræða það núna hvernig það verði gert.

 Ríkisstjórnin hélt fund í Alþingishúsinu í svokölluðu ríkisstjórnarherbergi í morgun en Geir segir það ekki  vegna mótmælenda sem hafa haft sig mikið í frammi að undanförnu.  Heldur sé þægilegt og heppilegt að vera í Alþingishúsinu þegar þingfundur eigi að hefjast klukkan hálf ellefu. Um mótmælin hafði Geir það að segja að það væri  ekki gott ef einstaka menn væru farnir að kasta grjóti eða brjóta rúður í mótmælum . Slíkt  sé engum málstað til framdráttar.

 Athugasemd: Í fyrstu gerð fréttarinnar var sagt að ríkisstjórnin ætti að skila hallalausum fjárlögum árið 2010. Forsætisráðuneytið benti á að það væri fyrst 2012 sem ættu að vera hallalaus fjárlög en dregið yrði mikið úr fjárlagahalla árið 2010 eða sem næmi 2 til 3 prósentum af þjóðarframleiðslu á ári. Fréttinni var því breytt samkvæmt því.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka