Vinstri grænir kynna þrjú frumvörp um skattabreytingar

Steingrímur J. Sigfússon, formaður Vinstrihreyfingarinnar - græns framboðs.
Steingrímur J. Sigfússon, formaður Vinstrihreyfingarinnar - græns framboðs. mbl.is/Ómar

Vinstrihreyfingin - grænt framboð hefur lagt fram þrjú frumvörp til breytinga á skattamálum. Þau miða öll að því að afla ríkissjóði nokkurra viðbótartekna en þó ekki síður að innleiða meira réttlæti og meiri sanngirni í skattkerfinu. Þá er lagt til að Varnarmálastofnun verði lögð niður, að því er fram kemur í tilkynningu frá VG.

Þar segir jafnframt að fjárlagafrumvarpið sem nú sé til umfjöllunar á Alþingi, frumvarp ríkisstjórnarinnar og Alþjóðagjaldeyrissjóðsins, muni hafa í för með sér gríðarlega erfiðleika í rekstri hins opinbera, ekki síst í velferðarþjónustunni.

Frumvarpið byggi í allt of miklum mæli á flötum niðurskurði sem komi verst við þá sem síst skyldi í samfélaginu. Vinna við fjárlagagerðina sé fjarri því að uppfylla kröfur vandaðra og þingræðislegra vinnubragða og enn sé óupplýst um mikilvægar grunnforsendur frumvarpsins.

1. Tekjuöflun. Þingflokkur Vinstri grænna kynnir hér þrjú frumvörp til breytinga í skattamálum sem öll miða að hvoru tveggja í senn, að afla ríkissjóði nokkurra viðbótartekna en þó ekki síður að innleiða meira réttlæti og meiri sanngirni í skattkerfinu. Þessi frumvörp eru:
a) frumvarp um þrepaskipt álag á hærri laun,

b) frumvarp um breytt fyrirkomulag fjármagnstekjuskatts,

c) frumvarp um reiknað endurgjald fjármagnstekjuhafa sem litlar eða engar launatekjur telja fram.

Samtals má ætla að frumvörp þessi gæfu ríkissjóði viðbótartekjur upp á 5,5-6 ma.kr. á næsta ári.

2. Viðbótarsparnaður. Að sjálfsögðu er einnig rétt og skylt að skoða hvar unnt er að ná fram, án verulegs sársauka eða tjóns fyrir samfélagið, viðbótarsparnaði. Þar áætlar þingflokkur Vinstri grænna að ná megi fram sparnaði upp á 1,5-2 ma.kr. og bendir í því sambandi á eftirfarandi:

a) Að leggja niður Varnarmálastofnun sem, að frátöldum kostnaði sem hlytist af að ljúka starfseminni, gæti sparað allt að 700-800 m.kr. strax á næsta ári.

b) Að hverfa frá skipulagsbreytingum í heilbrigðis- og tryggingamálum, hætta við stofnun Sjúkratryggingastofnunar og endurskipuleggja þess í stað með heildstæðum hætti starfsemi Tryggingastofnunar. Sparnaður af þessu gæti orðið 250 m.kr. á næsta ári.

c) Hætta við ýmsar aðrar fyrirhugaðar skipulags- og kerfisbreytingar sem munu að óbreyttu valda nokkrum kostnaði og auka álag starfsfólks á erfiðum tímum.

d) Hætta við þátttöku á heimssýningunni í Kína.

e) Breyta fyrirkomulagi á dagpeningagreiðslum ráðherra, þingmanna og embættismanna, þannig að í stað fastra dagpeningagreiðslna á ferðalögum kæmi endurgreiðsla kostnaðar með þaki.

f) Frekari sparnaður í yfirstjórn ráðuneyta og opinberra stofnana.

3. Draga úr sársaukafullum niðurskurði
með þeim tekjum og þeim sparnaði sem að ofan greinir, jafnvel þó af því hlytist viðbótarhalli á ríkissjóði sem næmi nokkrum milljörðum króna, vill þingflokkur VG; hverfa frá hugmyndum um skerðingu í almannatryggingakerfinu, draga verulega úr sársaukafullum niðurskurði og hætta við nýja gjaldtöku í heilbrigðiskerfinu og draga úr niðurskurði til menntamála. Einnig þarf að hlífa betur ýmsum smærri en mikilvægum verkefnum við þeim mikla niðurskurði sem nú er fyrirhugaður.

Um leið og þingflokkur Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs bendir hér að framan á sanngjarnari og eðlilegri leiðir til bæði tekjuöflunar og sparnaðar en þær sem ríkisstjórnin leggur til, ítrekar VG  að fjárlagafrumvarpið og tengd frumvörp eru á engan hátt nægilega vel unnin til að þau séu tæk til afgreiðslu. Alþingi ber skylda til að taka sér meiri tíma og vanda betur til vinnubragða í þessum efnum, enda er um að ræða framtíð íslenska velferðarsamfélagsins. Á erfiðleikatímum eins og þeim sem nú ganga yfir þjóðina er velferðarkerfið mikilvægara en nokkru sinni og starfsemi hins opinbera, ríkis og sveitarfélaga, ómissandi kjölfesta í samfélaginu. Því verður að vanda til verka.


mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert