Afnema kennsluafslátt

Háskóli Íslands
Háskóli Íslands mbl.is/Ómar

Gífurleg óánægja er meðal prófessora við Háskóla Íslands með niðurskurðartillögu háskólaráðs. Gert er ráð fyrir að afnámi aldurs- og rannsóknartengds kennluafsláttar sem ráðið hefur þegar samþykkt, lækkun á kostnaði vegna rannsóknarmissera, verulegum samdrætti í launakostnaði vegna yfirstjórnar og sameiginlegrar stjórnsýslu, sem og að tölvu- og tækjakaup verði aflögð.

Er það mat Félags prófessora við ríkisháskóla að niðurskurðurinn bitni að stærstum hlut á prófessorum við HÍ. „Við erum meira en tilbúnir að axla ábyrgð til jafns við aðra í háskólanum,“ segir Gísli Már Gíslason formaður Félags prófessora við ríkisháskóla. „Að 200 milljónir af þeim 320 milljóna króna sparnaði sem HÍ ætlar að ná fram eigi að koma beint frá prófessorum finnst okkur hins vegar ekki réttlátt.“

Sársaukafullur niðurskurður

Full kennsluskylda prófessora er 769 klukkustundir, en 160 stunda afsláttur hefur verið veittur við 55 ára aldur og 320 stunda afsláttur við 60 ára aldur gegn aukinni rannsóknarskyldu. Niðurskurðartillagan gerir ráð fyrir að þessi afsláttur verði afnuminn. „Með þessu móti er verið að auka kennsluskyldu þeirra prófessora, 55 ára og eldri sem staðið hafa sig best í rannsóknum,“ segir Gísli Már.

Kristín Ingólfsdóttir, rektor Háskóla Íslands, segir að í þeim niðurskurði sem háskólayfirvöld standi frammi fyrir sé reynt að standa vörð um störf í skólanum eins og kostur er. „Við göngum líka út frá því að skaða sem minnst grundvallarstarfsemi skólans.“ Hún lítur ekki svo á að um kjaraskerðingu sé að ræða. „Þetta er tilfærsla á starfsþáttum og útilokar ekki að þeir sem eru afkastamestir í rannsóknum geti fengið minnkaða kennsluskyldu óháð aldri,“ segir hún. „Skólanum er gert að skera niður um milljarð og við verðum öll að taka þátt í þeim mikla niðurskurði.“

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert