Ekki hægt að taka inn nýnema

Háskóli Íslands
Háskóli Íslands mbl.is/Kristinn Ingvarsson

Háskóli Íslands getur ekki tekið inn þá ríflega 1.600 umsækjendur sem sóttu um háskólanám á vorönn nema skólinn fái til þess fjárveitingu. Háskólanum hefur verið gert að skera niður um milljarð í nýju fjárlagafrumvarpi miðað við það sem fjármálaráðherra kynnti í október.

Háskólinn lengdi umsóknarfrest og bauð fólki að sækja um nám í fleiri deildum en áður við áramót og segir Kristín Ingólfsdóttir háskólarektor að ekki hafi átt að afgreiða umsóknirnar fyrr en ljóst væri um fjárveitingar til skólans. Þegar umsóknarfrestinum lauk á mánudaginn höfðu rúmlega 1.600 sótt um. Það eru um þrettán prósent af heildarnemendafjölda skólans.

Kristín segir að skólinn verði að skera niður eins og aðrir í þessu árferði. „En niðurskurðurinn er talsvert meiri en við áttum von á og hlutfallslega meiri en hjá öðrum háskólum,“ segir hún. „Þetta er gríðarlega sársaukafullt fyrir skólann. Við munum gera það sem við getum því við viljum mæta okkar samfélagslegu ábyrgð.“ Kristín er í viðræðum til þess að fá bættan þann viðbótarkostnað sem hlýst af inntöku nýrra nemenda. „Við viljum ekki gefa upp hversu margir komast inn fyrr en við vitum endanlega hver fjárveiting okkar verður.“

Kristín vísar því á bug að þetta sé þrýstiaðgerð. „En það segir sig sjálft að við getum ekki bæði tekið við kröfu um milljarð í niðurskurð og tekið við 1.600 nýjum nemendum í skólann. Við þurfum að hugsa um gæði námsins því engum er greiði gerður með því að minnka kröfurnar. Að lokum værum við að gera samfélaginu grikk með því.“ Dæmi eru um að skólinn hafi þegar sent greiðsluseðla til þeirra sem sóttu um nám. Þeir hafa verið ógiltir. Kristín segir að háskólaráð taki afstöðu til inntöku á fundi á morgun, mánudag, og í kjölfarið verði tilkynningar sendar út til umsækjenda. Biðlað var til allra háskóla að gera það sem hægt væri til að taka við nemendum við áramót. „Í fyrra voru umsóknir um tvö hundruð,“ segir Kristín. Eftirspurnin hefur margfaldast milli ára enda hart í ári.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka