Skýrt var frá því í Morgunblaðinu í morgun að Skipulagsstofnun hefði úrskurðað að mat á umhverfisáhrifum tilraunaborana á Þeistarreykjum og nálægum svæðum skuli ekki meta sameiginlega með mati á umhverfisáhrifum vegna virkjana. Er nú ljóst að tilraunaboranirnar munu ekki tefja fyrir virkjunum.
Magnús Jóhannesson, ráðuneytisstjóri í umhverfisráðuneytinu, segir að úrskurðurinn sé í fullu samræmi við upprunalegt álit ráðuneytisins, ekki sé verið að úrskurða gegn ráðherra eins og sagði í fyrrsögn fréttarinnar í blaðinu. ,,Úrskurður umhverfisráðherra í júlí um sameiginlegt mat á álverinu á Bakka og orkuframkvæmdunum við Kröflu og Þeistareykjum og línulögnunum snerist um það að ekki yrði gefið út leyfi fyrir þessum framkvæmdum, þ. e. a. s. áður en fyrir liggur sameiginlegt mat á þessum orkuframkvæmdum.
Strax komu upp vangaveltur um það hvort þetta myndi eiga líka við um svokallaðar tilraunaboranir sem eru nauðsynlegar áður en hægt er að hanna verksmiðjuna. Við lýstum því strax yfir í ráðuneytinu að við teldum það ekki vera hluta af þessu sameiginlega mati. Skipulagsstofnun er því í reynd búin að túlka þetta með nákvæmlega sama hætti og við."
Magnús segir ennfremur að nú sé ljóst að ekkert standi í vegi fyrir því af hálfu stofnana hérlendis að boranirnar sem verða að fara fram á sumrin, geti hafist næsta sumar.