Evrópunefnd Sjálfstæðisflokksins er heimilt að leggja fleiri en eina tillögu fyrir landsfund flokksins ef ekki næst samstaða í nefndinni.
Þetta segir Geir H. Haarde, formaður Sjálfstæðisflokksins og forsætisráðherra, m.a. í athugasemd á vef Evrópunefndarinnar við grein Styrmis Gunnarssonar, fv. ritstjóra Morgunblaðsins, á sama vef.
Í svari sínu undirstrikar Geir að endanlegt vald um stefnu Sjálfstæðisflokksins í Evrópumálum sé eftir sem áður í höndum landsfundar flokksins eins og í öðrum málum.
Í grein sinni kallaði Styrmir eftir svörum frá formanni Sjálfstæðisflokksins um hver væri tilgangur og markmið landsfundarins og hvert væri raunverulegt hlutverk Evrópunefndarinnar. Höfðu spurningar vaknað í huga hans hvort tilgangur landsfundar væri annar en sá sem gefinn hefði verið upp á blaðamannafundi í Valhöll 14. nóvember sl.
Rakti Styrmir í greininni ummæli Geirs og Þorgerðar Katrínar Gunnarsdóttur, varaformanns Sjálfstæðisflokksins, á blaðamannafundinum þar sem Þorgerður sagði m.a.: „Við erum í breyttum heimi og við höfum ávallt talað um að við þyrftum að fara í kalt hagsmunamat. Við erum að virkja okkar grasrót.“
Vitnaði Styrmir síðan til orða Þorgerðar á Vísi.is vegna ummæla sem norska blaðið Klassekampen hafði eftir henni: „Ég sagði að við ættum að fara í aðildarviðræður og það væri hluti af okkar lausn í efnahagsmálunum.“
Sagði Styrmir ennfremur frá þeirri skoðun sem kom fram á fundi einnar undirnefndar Evrópunefndarinnar, að markmiðið með landsfundi í lok janúar nk. væri að forysta Sjálfstæðisflokksins fengi umboð til þess að semja við aðra flokka um að aðildarumsókn Íslands að ESB yrði lögð fram. Þessum skilningi hefði verið mótmælt á fundinum.