Björgunarsveitir Slysavarnafélagsins Landsbjargar hafa í kvöld leitað tveggja manna sem villtust í slæmu veðri í Skarðsheiði undir kvöld. Mennirnir eru báðir fundnir heilir á húfi en annar þeirra var orðinn nokkuð kaldur er hann fannst og er verið að flytja hann undir læknishendur.
Hátt í hundrað manns á vegum björgunarsveitanna komu að leitinni og var einnig búið að kalla út þyrlu Landhelgisgæslunnar. Skafrenningur og töluverður vindur er á svæðinu og færð þung sem tefur fyrir björgunarmönnum, að sögn Sigurðar Ólafs Sigurðssonar, hjá landsstjórn björgunarsveita.
Annar maðurinn fannst á gangi fyrr í kvöld en hinn fannst nú um tíuleytið. Mennirnir höfðu orðið viðskila þegar annar þeirra var of þreyttur til að halda áfram göngunni en veður er slæmt á þessum slóðum og færið erfitt. Hinn ákvað að ganga til byggða og var hann á göngu þegar björgunarsveitarmenn fundu hann í kvöld. Var hann með nokkuð nákvæma staðsetningu á félaga sínum og voru björgunarsveitarmenn í sambandi við hann í gegnum síma. Eins og áður sagði var maðurinn sem fannst síðar kaldur en ómeiddur. Að sögn Sigurðar er skafrenningur á Skarðsheiði og hvasst.