Röng forgangsröðun

Röng forgangsröðun og jafnvel brenglað siðferðismat eru lýsandi fyrir aðgerðir ríkisstjórnarinnar. Þetta er mat stjórnarandstöðunnar sem lýsti skoðunum sínum við atkvæðagreiðslu um bandormsfrumvarpið í upphafi þingfundar í morgun. Sögðu þau ráðist gegn þeim sem eiga munu erfiðast með að koma í gengum kreppuna: Barnafólki, skuldugum húsnæðiseigendum, lífeyrisþegum og bændum. 

Árni Páll Árnason, þingmaður Samfylkingar, sagði hins vegar að með ráðstöfunum ríkisstjórnarinnar væri verið að tryggja hag þeirra er lakast standa. Úrræðaleysi stjórnarandstöðunnar væri algert og VG boðaði ekkert nema taumlausan ríkishalla sem myndi kalla óðaverðbólgu og okurvexti yfir þjóðina.

Ögmundur Jónasson, þingmaður VG, lagði til að Samfylkingin kenndi sig aldrei aftur við jöfnuð. Það sæmdi ekki eftir atlöguna gegn öldruðum og öryrkjum.

Helga Sigrún Harðardóttir, þingmaður Framsóknar, tók í sama streng og sagði Samfylkinguna hafa hlaupist á brott frá öllum sínum kosningaloforðum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert