Birna Einarsdóttir, bankastjóri Nýja Glitnis, var í krabbameinsmeðferð á sama tíma og hlutabréfakaup hennar í gamla bankanum áttu að ganga í gegn. Hún segist þó vilja forðast að tengja veikindi sín þeirri handvömm sem varð við frágang hlutabréfakaupanna.
Eins og rakið hefur verið var Kauphöll Íslands tilkynnt um kaup Birnu á hlut í gamla Glitni í mars á síðasta ári en síðar sama ár kom í ljós að vandamál höfðu komið upp við skráninguna. Það var svo ekki fyrr en á aðalfundi bankans, í febrúar í ár, að í ljós kom að eignarhlutur Birnu var hvergi á skrá og kaupin höfðu því ekki gengið eftir.
Í samtali við Morgunblaðið segir Birna ekki ástæðu til að gera of mikið úr veikindum sínum í þessu samhengi, en staðfestir að þau hafi borið upp á þessum tíma. „Það er rétt, ég greindist með krabbamein í fyrrasumar, fór í aðgerð í júlí og byrjaði í lyfjameðferð í ágúst,“ segir hún og að það hafi verið á sama tíma og mistökin við upphaflega skráningu hlutabréfa hennar hafi uppgötvast. „Tölvupósturinn sem ég fékk um að breyta þyrfti vísitölunni á skráningunni kom daginn áður en ég fór í fyrstu sprautuna, og ég samþykkti að það væri gert. Aðalfundurinn var svo haldinn sama dag og ég fór í síðustu geislameðferðina, en það var þá sem ég uppgötvaði að hlutabréfin hefðu aldrei verið skráð. Þannig að þetta var nákvæmlega sama tímabilið.“