Hellisheiði er enn lokuð, en þar er mikið fannfergi. Björgunarsveitir frá Hveragerði sóttu í nótt samtals 12 manns úr sex bílum sem lent
höfðu í ógöngum á Hellisheiði vegna ófærðar. Fólkið lagði á heiðina þrátt fyrir viðvaranir um að þar væri ekkert ferðaveður. Yfirgefnir bílar fólksins hafa tafið mokstur nú í morgunsárið. Samkvæmt upplýsingum frá Vegagerðinni voru Þrengslin opnuð snemma í morgun, en þar er hálka og skafrenningur.
Í samtali við Morgunblaðið sagði lögreglan á Selfossi því miður alltaf eitthvað um það að fólk færi ekki eftir viðvörunum um ófærð og legði samt í hann. Þannig hefði verið búið að senda út tilkynningu fyrir kl. 19 í gærkvöldi þess efnis að Hellisheiðin væri ófær og á vegskiltum sitt hvoru megin við Hellisheiði hefði einnig verið að finna sömu upplýsingar.
Hjá Vegagerðinni fengust þær upplýsingar að hálkublettir eru víða á Reykjanesi og á Kjalanesi. Á Suðurlandi er hálka, þæfingur og skafrenningur á flestum leiðum.
Á Vesturlandi er hálka. Þæfingsfærð er á Fróðárheiði, þungfært og skafrenningur er á Útnesvegi. Á Vestfjörðum er hálka. Ófært er yfir Hrafnseyrarheiði, Dynjandisheiði og Eyrarfjall.
Á Norðurlandi er hálka, hálkublettir og snjóþekja. Mikil éljagangur er í Eyjafirði og skafrenningur er á Mývatnsheiði og Mývatnsöræfum.
Á Austurlandi er þungfært og stórhríð á Fjarðarheiði, þæfingur og stórhríð er á Oddskarði, þæfingur og skafrenningur er á Fagradal, hálka og snjóþekja á örðum leiðum. Ófært er um Breiðdalsheiði.
Á Suðausturlandi er flughált vestan Kirkjubæjarklausturs, þæfingur og snjókoma á Mýrdalssandi, hálka á öðrum leiðum.