Björgunarsveitir sóttu í nótt samtals 12 manns úr sex bílum sem lent höfðu í ógöngum á Hellisheiði vegna ófærðar. Samkvæmt upplýsingum frá lögreglunni á Selfossi voru Þrengslin opnuð snemma í morgun, en bílarnir sem skildir voru eftir á Hellisheiði tefja mokstur sem nú stendur yfir. Byrjað var að moka kl. 05 í morgun, en sennilegast tekst ekki að klára mokstur og þar með opna Hellisheiðina fyrr en eftir um tvo klukkutíma.
Í samtali við Morgunblaðið sagði lögreglan því miður alltaf eitthvað um það að fólk færi ekki eftir viðvörunum um ófærð og legði samt í hann. Þannig hefði verið búið að senda út tilkynningu fyrir kl. 19 í gærkvöldi þess efnis að Hellisheiðin væri ófær og á vegskiltum sitt hvoru megin við Hellisheiði hefði einnig verið að finna sömu upplýsingar.