12 mánaða fangelsi fyrir árás á lögreglumann

Héraðsdómur Reykjaness.
Héraðsdómur Reykjaness. mbl.is/ÞÖK

Héraðsdómur Reykjaness dæmdi í morgun tæplega fimmtugan karlmann í 12 mánaða fangelsi fyrir árás á lögreglukonu. Maðurinn var í febrúar í fyrra dæmdur fyrir árás á lögreglumann. Sá dómur var skilorðsbundinn og með broti sínu nú rauf maðurinn því skilorðið.

Maðurinn réðist í ágúst síðastliðnum að lögreglukonu í Hafnarfirði þar sem hún var við skyldustörf. Maðurinn reif í hár konunnar, stakk fingrum sínum upp í munn hennar, klóraði hana í tannholdið og sló hana með krepptum hnefa í vinstri kjálka, allt með þeim afleiðingum að konan hlaut opið sár á vör og í munnhol, sem sauma þurfti með nokkrum sporum, og eymsli hægra megin í kjálka og kjálkalið.

Maðurinn játaði skýlaust brot sitt. Hann er fæddur í júlí 1961. Með dómi Hæstaréttar 22. febrúar 2007, var staðfest sakfelling yfir honum vegna brots gegn valdstjórninni. Maðurinn réðist þá harkalega á lögreglumenn í lögreglubifreið, en verið var að flytja manninn á slysadeild. Honum var gert að sæta fangelsi í fjóra mánuði og voru þrír mánuðir refsingarinnar skilorðsbundnir í tvö ár. Með árásinni á lögreglukonuna nú rauf hann skilorðsdóminn.

Í dómsorði héraðsdóms Reykjaness segir að við ákvörðun refsingar sé  til þess að líta að brot gegn lögreglumanni að störfum eru litin alvarlegum augum. Þá verði að líta til þess að í örorkumati sérfræðings í bæklunarskurðlækningum, komi fram að afleiðingar árásarinnar eru þær að lögreglukonan er með lýtandi sár á vör, eymsli hægra megin í kjálka og kjálkalið og árásin hefur valdið henni andlegri vanlíðan. Varanleg læknisfræðileg örorka er metin 5%.

Þá segir að þar sem maðurinn hefur áður sætt refsingu fyrir að ráðast að lögreglumanni verði enn fremur við ákvörðun refsingar að líta til ítrekunarheimildar almennra hegningarlaga. Einu málsbætur ákærða séu þær að hann hefur skýlaust játað brotið. Að öllu þessu virtu þyki refsing hans hæfilega ákveðin fangelsi í tólf mánuði.

Dómur Héraðsdóms Reykjaness

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert