Það væri góð nýársgjöf til þjóðarinnar að tilkynna að leyfðar yrðu veiðar á 20-30 þúsund tonnum af þorski og að kvótann ætti að bjóða upp á markaði. Þetta segir Karl V. Matthíasson, þingmaður Samfylkingar og varaformaður sjávarútvegs- og landbúnaðarnefndar Alþingis, og leggur ríka áherslu á að bjóða ætti kvótann upp á markaði.
„Ef við myndum leyfa veiðar á 20 þúsund tonnum á þorski og fá 150 krónur fyrir kílóið gæfi það af sér 3 milljarða króna,“ segir Karl og bætir við að féð mætti nota til þess að styðja enn frekar nýsköpun í sjávarútvegi, t.d. með því að ýta undir kræklingarækt og þorskeldi. „Þetta væru góð skilaboð út í samfélagið og myndi auka atvinnu,“ segir Karl.
Bæði Einar K. Guðfinnsson sjávarútvegsráðherra og Arnbjörg Sveinsdóttir, formaður sjávarútvegs- og landbúnaðarnefndar, hafa sagt að yrði kvóti aukinn ætti hann að fara til þeirra sem urðu fyrir skerðingu þegar þorskveiðar voru dregnar saman.