Umsóknir íslenskra námsmanna erlendis um neyðarlán hafa ekki enn verið afgreiddar hjá Lánasjóði íslenskra námsmanna. Til að umsókn sé samþykkt er nauðsynlegt að umsækjandi hafi beðið beinan skaða af bankahruninu en gengissveiflur einar eru ekki næg ástæða.
Hátt í hundrað umsóknir um neyðarlán hafa borist, að sögn Hjördísar Jónsdóttur, framkvæmdastjóra Sambands íslenskra námsmanna erlendis og fulltrúa nemenda í nefnd sem fer yfir umsóknirnar. Hún segir ákveðið fjármagn vera til ráðstöfunar og að nauðsynlegt hafi verið að takmarka neyðarlánin við beinan fjárhagslegan skaða vegna bankahrunsins. ,,Þær umsóknir sem uppfylla þetta skilyrði hafa verið teknar fyrir og beðið hefur verið um ítarlegri gögn, t.d. bankayfirlit,“ segir Hjördís. Hún segir að ekki sé búið að samþykkja nein lán, umsagnir nefndarinnar séu í vinnslu hjá lánadeild sjóðsins. ,,Neyðarlánin verða þó afgreidd með öðrum lánum í janúar.“