Gagnrýna stórfelldan flatan niðurskurð

Fundað í borgarstjórn Reykjavíkur.
Fundað í borgarstjórn Reykjavíkur. mbl.is/Brynjar Gauti

Borgarfulltrúar Samfylkingarinnar segja það vonbrigði að örfáum dögum áður en frumvarp um fjárhagsáætlun Reykjavíkurborgar fyrir árið 2009 hefi verið lagt fram hafi komið fram tillögur frá borgarstjóra um stórfelldan flatan niðurskurð og lækkun yfirvinnugreiðslna. Samtals upp á 2,5 milljarða.

„Þessi sparnaður á að leggjast ofan á þær niðurskurðartillögur sem sviðin hafa áður unnið að og lagt fram. Einhliða tillögur borgarstjóra  voru hvorki undirbúnar né ræddar í aðgerðarhópi borgarráðs, fagráðum né af sviðsstjórum einstakra sviða. Því síður var samráð haft við stéttarfélög, annað starfsfólk borgarinnar eða samtök foreldra,“ segir í tilkynningu frá Degi B. Eggertssyni, borgarfulltrúa Samfylkingarinnar.

Hann segir að eftir yfirferð aðgerðarhóps, sviðsstjóra og fagráða Reykjavíkurborgar á niðurskurðartillögum borgarstjóra telji Samfylkingin fyllstu ástæðu til að hafa alla fyrirvara á raunhæfni þeirra án þess að svíkja þverpólitísk leiðarljós borgarstjórnar um að standa vörð um grunnþjónustu, koma í veg fyrir uppsagnir og gjaldskrárhækkanir.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert