Halldóra Eldjárn látin

Halldóra Kristín Ingólfsdóttir Eldjárn, fyrrverandi forsetafrú, lést í gær, 85 ára að aldri.

Halldóra Eldjárn fæddist 24. nóvember 1923 á Ísafirði og ólst þar upp, elst fjögurra systkina. Foreldrar hennar voru hjónin Ólöf Sigríður Jónasdóttir, húsmóðir og Ingólfur Árnason, verslunarmaður og framkvæmdastjóri.
 
Að loknu gagnfræðanámi á Ísafirði hóf Halldóra nám við Verslunarskóla Íslands. Hún lauk þaðan verslunarprófi 1942. Halldóra Eldjárn fékkst síðan við skrifstofustörf í Reykjavík uns hún giftist Kristjáni Eldjárn, þjóðminjaverði árið 1947. Þau hófu búskap í Reykjavík og urðu börn þeirra fjögur. Ólöf Eldjárn, ritstjóri og þýðandi, Þórarinn Eldjárn, skáld og rithöfundur, Sigrún Eldjárn, rithöfundur og myndlistarmaður og Ingólfur Árni Eldjárn, tannlæknir.

Kristján Eldjárn var kjörinn þriðji forseti Íslands 30. júní 1968. Hann var endurkjörinn án atkvæðagreiðslu 1972 og 1976. Kristján Eldjárn lét af 1980. Hann lést 14. september 1982.

Eftir það starfaði Halldóra Eldjárn í nokkur ár hjá Orðabók háskólans.

Samúðarkveðja frá Ólafi Ragnari Grímssyni, forseta Íslands

Við andlát Halldóru Eldjárn fyrrverandi forsetafrúar hefur forseti
Íslands Ólafur Ragnar Grímsson sent fjölskyldu hennar eftirfarandi
samúðarkveðju:
„Halldóra Eldjárn naut ætíð mikillar virðingar meðal þjóðarinnar og Íslendingar sameinast um að heiðra minningu hennar. Hún stóð við hlið eiginmanns síns, Kristjáns Eldjárn forseta Íslands, af ábyrgð og skyldurækni, mótaði heimilisbrag á Bessastöðum, heimsótti byggðir landsins og var ásamt Kristjáni virtur fulltrúi þjóðarinnar. Með hógværð sinni og alúð markaði hún djúp spor í sögu hins unga lýðveldis. Fólkið í landinu hugsaði ætíð til hennar með hlýju og þakklæti.
Við andlát hennar vottum við Dorrit fjölskyldunni einlæga samúð okkar.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert