Jólabjórinn hækkaði um allt að helming

Jólabjór hefur hækkað um allt að helming frá því í desember í fyrra, samkvæmt könnun Neytendasamtakanna. Verðhækkun er minnst á hinum danska Royal Xmas jólabjór, um 23% og mesta hækkunin er á íslenska Víking jólabjórnum eða rúm 49%.

Í desember fyrir ári birtu Neytendasamtökin verð á jólabjór í 33 cl. umbúðum hjá ÁTVR. Á vefsíðu Neytendasamtakanna segir að fróðlegt sé að skoða verðbreytingar á þessu tólf mánaða tímabili, enda hafi nokkrar ákvarðanir verið teknar síðustu vikur sem hafi áhrif á verðið.

Bæði hækkanir á áfengisgjaldi, álagningu og verðhækkanir hjá birgjum ásamt skilagjaldi umbúða hafi haft áhrif á verðþróun.

Royal Xmas, dós (5,6%) kostaði 169 krónur  fyrir ári en kostar nú 208 krónur. Hækkunin er 23%.

Tuborg, dós (5,6%) kostaði 194 krónur í fyrra en kostar nú 244, hækkunin er 26%.

Egils, í gleri (4,8%) kostaði 198 krónur í fyrra en kostar nú 260 krónur og hefur því hækkað um 31%.

Tuborg, í gleri (5,6%) kostaði 198 krónur en kostar í dag 276 krónur sem er 39% hækkun.

Egils Malt, í gleri (5,6%) kostar nú 281 krónu en kostaði 198 krónur fyrir ári. Hækkunin er 42%.

Víking, í gleri (5,2%) kostaði 174 krónur í desember í fyrra en kostar nú 260 krónur. hækkunin er 49%.

Neytendasamtökin taka fram að könnunin er alls ekki tæmandi og fleiri tegundir jólabjóra fást í verslunum ÁTVR.

Heimasíða Neytendasamtakanna

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert