Kostnaður við ESB-aðild aldrei kynntur

Adolf Guðmundsson, formaður LÍÚ
Adolf Guðmundsson, formaður LÍÚ mbl.is

„Eins og sjávarútvegsstefna ESB er nú myndi íslenskur sjávarútvegur búa við mun lakari rekstrarskilyrði með aðild að ESB en utan sambandsins. Innan ESB myndum við ekkert hafa um það að segja hvernig veiðum úr deilistofnum við Ísland yrði háttað. Þetta á t.d. við um loðnu og makríl. ESB hefur ekki viljað viðurkenna okkar strandríkisrétt og hleypa okkur að samningaborðinu um skiptingu makrílkvótans í Norður-Atlantshafi,” segir Adolf Guðmundsson, formaður LÍÚ, í ítarlegu viðtali við tímaritið Ægi sem kemur út í dag.

Adolf segir að innan ESB sé fiski hent í stórum stíl vegna þess að reglurnar séu þannig að menn megi ekki koma með að landi þann afla sem ekki er kvóti fyrir.

„Af þessu hafa menn miklar áhyggjur. Ef við værum hluti af  ESB væri sú hætta fyrir hendi að útlendingar eignuðust hér fjölda fyrirtækja í sjávarútvegi. Sumir segja að það sé bara allt í lagi, en ég tel að ef þetta myndi gerast væri síður en svo sjálfgefið að landið myndi allt haldast í byggð. Sumir halda því fram að þetta sé svartsýnishjal en svo er alls ekki. Við höfum einfaldlega fyrir okkur fjölmörg dæmi í þessa veru í sjávarútvegi innan ESB-landanna,“ segir Adolf Guðmundsson.

Hann segir að hér á landi hafi aldrei verið kynnt hvað innganga Íslands í ESB myndi kosta. „Menn segja sem svo að Íslendingar fái svo mikið af styrkjum úr sjóðum sambandsins að ágóðinn yrði meiri en útlagður kostnaður. Það held ég að sé rangt vegna þess að þrátt fyrir allt held ég að Ísland sé of efnahagslega sterkt til þess að njóta mikilla styrkja úr sjóðum ESB. Eftir sem áður munum við eiga þess kost að fá vísinda- og menningarstyrki frá ESB, en ég hef ekki nokkra trú á því að við fáum byggðastyrki frá sambandinu,“ segir Adolf í viðtalinu við Ægi.

Vefsíða LÍÚ

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka