Valið er einfalt, annað hvort að greiða atkvæði með jöfnuði eða viðhalda ójöfnuði. Þetta sagði Jón Magnússon, þingmaður Frjálslyndra, á Alþingi í morgun í atkvæðagreiðslu um eftirlaun æðstu ráðamanna og hvatti þingmenn til að greiða atkvæði með breytingartillögum stjórnarandstöðunnar þess efnis að allir um þingmenn, ráðherra og æðstu embættismenn gildi það sama og aðra opinbera starfsmenn.
Ögmundur Jónasson, þingmaður VG, óskaði eftir nafnakalli í atkvæðagreiðslu um breytingartillögu stjórnarandstöðunnar til að afstaða sérhvers þingmanns væri ljós. Hvatti hann þingmenn einnig til að elta ekki flokkslínur í þessu máli. Sérréttindin væru ekki afnumin með breytingartillögum ríkisstjórnarinnar og sakaði Ögmundur Samfylkinguna um loddaraleik.
Siv Friðleifsdóttir, þingmaður Framsóknar, sagði að hefði gefist meiri tími til umfjöllunar um málið hefði að líkindum verið hægt að ná stjórnarflokkunum inn á línu stjórnarandstöðunnar.
Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, utanríkisráðherra, sagði frumvarpið hins vegar marka tímamót og afnema hin umdeildu lög frá árinu 2003, eins og Samfylkingin hefði ítrekað hvatt til. Í sama streng tók Ágúst Ólafur Ágústsson, þingmaður og varaformaður Samfylkingarinnar, en áréttaði að skoðun á þessum lögum væri endanlega lokið.
Pétur H. Blöndal, þingmaður Sjálfstæðisflokks, áréttaði skoðun sína að það sama ætti að gilda um þingmenn og almenning, þ.e. þeir ættu að greiða í almenna lífeyrissjóði.
Stjórnarandstöðuþingmenn telja frumvarpið engu að síður skref í rétta átt og styðja breytingarnar. Sumir stjórnarandstöðuþingmenn sátu hins vegar hjá við atkvæðagreiðslu. Frumvarpið gengur nú til þriðju umræðu og verður að líkindum samþykkt í dag.