Ógreind hrossasótt á Kjalarnesi

Upp er kominn ógreindur hrossasjúkdómur í Norðurgröf á Kjalarnesi. Fram kemur á vef hestamannafélagsins Harðar að sjúkdómnum fylgi hiti og niðurgangur og að einkennanna hafi orðið vart hjá fjölda hrossa í 40 hesta húsi. Einn hestur hefur þegar drepist úr sóttinni og stendur til að hann verði krufinn.

Nokkrir hestar úr umræddu hesthúsi voru fluttir í hesthúsahverfi Harðar áður en sjúkdómsins varð vart. Ákveðið verður á næstu klukkustundum hvort  hverfinu verður lokað  vegna þessa en þeim tilmælum er beint til hestamanna að flytja ekki hesta til eða frá hverfinu.

Einnig er því beint til þeirra sem eiga hesta á svæðinu að þeir skipti um föt í hesthúsinu og fari ekki með neitt sem hafi verið í beinni snertingu við hrossin, heyflutningatæki eða hestakerrur inn á svæðið eða út af því.

Komi í ljós að um langvarandi vanda sé að ræða verður komið á skipulagðri aðferð við að koma heyi inn á svæðið.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert