Vanhæfur í málefnum peningamarkaðssjóða

Gísli Tryggvason
Gísli Tryggvason

Talsmaður neytenda, Gísli Tryggvason, hefur ákveðið að hætta afskiptum af málefnum peningamarkaðssjóða bankanna þar sem bróðir hans, Tryggvi Tryggvason, hefur verið ráðinn nýr framkvæmdarstjóri Landsvaka hf.

Samantekt talsmanns neytenda er nú lokið á réttarúrræðum neytenda vegna taps í peningamarkaðssjóðum með lista yfir lögmenn og svörum við útistandandi spurningum.

Talsmaður neytenda hefur undanfarnar vikur leitast við að koma í farveg álitaefnum sem varða neytendur sem tapað hafa fé í svonefndum peningamarkaðssjóðum stóru bankanna þriggja. Þar sem ekki hafði verið greitt út úr sambærilegum sjóðum sparisjóðanna í þessari viku og væntanlegt tap því ekki komið fram hefur talsmaður neytenda ekki haft afskipti af þeim en lýkur brátt afskiptum af málefnum þeirra með vísan til  hæfisreglna.

Fram að því hefur talsmaður neytenda haldið óformlegan fund með lögmönnum, neytendum og hagsmunaaðilum, fundað ásamt lögmönnum með fulltrúum Glitnis, Kaupþings og Landsbanka, mætt á fund hagsmunaaðila vegna taps í peningamarkaðssjóðum Landsbanka,
skrifað ríkisskattstjóra vegna hugsanlegrar skattaívilnunar samkvæmt gildandi lögum og ítrekað óskað upplýsinga frá bönkunum um tryggingar vegna hugsanlegra mistaka starfsmanna, stjórnenda og stjórnarmanna við ráðgjöf í tengslum við kaup í peningamarkaðssjóðum.

Á heimasíðu sinni birtir talsmaður neytenda lista yfir lögmenn sem taka að sér athugun á réttarstöðu neytenda vegna taps í peningamarkaðssjóðum Glitnis, Kaupþings og Landsbanka en Lögmannafélag Íslands tók að sér að setja saman þann lista.

Lýkur afskiptum vegna fjölskyldutengsla

Að fengnu svari frá ríkisskattstjóra um réttarstöðu neytenda varðandi skattaívilnun og eftir að svör hafa borist frá bönkunum varðandi tryggingar vegna hugsanlegra mistaka lýkur talsmaður neytenda afskiptum af málefnum peningamarkaðssjóða bankanna þar sem bróðir hans, Tryggvi Tryggvason, hefur frá 16. desember sl. verið ráðinn nýr framkvæmdarstjóri Landsvaka hf.

Landsvaki hf. er rekstrarfélag peningamarkaðssjóða á vegum Landsbankans. Er talsmaður neytenda eftir það því vanhæfur til þess að leggja frekara mat á álitaefnið - a.m.k. gagnvart peningamarkaðssjóðum Landsbankans - og hefja nýjar aðgerðir, svo sem að óska eftir upplýsingum frá Fjármálaeftirlitinu eins og komið hafði til álita. Hefur fulltrúum helstu hagsmunaaðila þegar verið greint frá þessu svo og viðskiptaráðuneyti.

Vefsíða talsmanns neytenda

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert