Minnihluti fjárlaganefndar Alþingis leggur til að fjárlög fyrir árið 2009 komi til endurskoðunar á Alþingi með sérstöku frumvarpi til fjáraukalaga sem lagt verði fyrir Alþingi eigi síðar en 1. mars 2009. Þriðja umræða um fjárlög 2009 hófst á Alþingi fyrir stundu.
Samkvæmt nýjustu breytingartillögum meirihluta fjárlaganefndar verður halli af rekstri ríkissjóðs á næsta ári um 154 milljarðar króna.
Minnihlutinn lýsir yfir áhyggjum sínum af því að lagt sé af stað inn í framtíðina með jafnilla grundaðar áætlanir og óskýra framtíðarsýn og birtist í fjárlagafrumvarpi 2009. Þar sé m.a. átt við að engin rekstraráætlun hafi verið lögð fram til fjögurra ára sem birtir framtíðarsýn ríkisstjórnarinnar á það hver rekstrarniðurstaðan sé líkleg til að verða. Þá hafi engar áætlanir verið lagðar fram um hver sé áætluð skuldastaða þjóðarbúsins og ríkissjóðs ár frá ári næstu fjögur árin. Engin greiðsluáætlun liggi fyrir og ekkert mat á því undir hve háum greiðslum afborgana og vaxta ríkissjóður og þjóðarbúið geta staðið. Lánskjör þeirra lána sem fyrirhugað er að taka liggi ekki fyrir og ekki liggi fyrir til hve langs tíma seðlabankar Bretlands og Hollands eru reiðubúnir að lána vegna Icesave-reikninganna. Þá liggi ekki fyrir lánsloforð Hollendinga heldur einungis viljayfirlýsing og það sé undir ríkisstjórninni komið hvort hún fær það lán eða ekki.
Þá varar minnihlutinn við þeirri hættu sem stafar af mögulegri hækkun vaxta á lánstímanum. Þegar skuldastaða þjóðarbúsins sé orðin jafnviðkvæm og í stefni, megi engu muna til að illa fari. Þá bendir minnihlutinn á að ekkert liggi fyrir um kjör vegna hugsanlegrar endurfjármögnunar.
Minni hlutinn telur að ekki sé unnt að vinna að trúverðugu fjárlagafrumvarpi á þann hátt sem meirihlutinn gerir. Verði fjárlög samþykkt út frá þessum hæpnu forsendum sem liggja til grundvallar muni þau ekki gefa rétta mynd af því sem fram undan er. Né heldur geti þau verið raunhæft og sanngjarnt stjórntæki ríkisfjármála eins og þeim er ætlað að vera.
Þá vekur minnihlutinn athygli á að margt hafi komið fram sem bendi til þess að rekstrarhalli ríkissjóðs næstu fjögur árin geti numið tekjum eins fjárlagaárs. Enn hafi ekkert komið fram sem dregur úr ótta minnihlutans við að skuldastaða ríkissjóðs geti á einhverjum tímapunkti numið vel á annað þúsund milljarða króna og að á móti þeim skuldum standi óvissar eignir í þrotabúum gömlu bankanna sem ekki hafi enn verið verðmetnar opinberlega.
Minnihlutinn vill að Alþingi fjalli um frumvarp til fjáraukalaga fyrir árið 2009 á vorþingi 2009. Ítrekað hafi verið bent á að mikilvægar upplýsingar og forsendur fjárlaganna vanti. Margt muni hins vegar skýrast Þegar líður fram á árið 2009, t.d. um væntanlegar skuldbindingar ríkissjóðs varðandi uppgjör á innstæðureikningum Icesave í Bretlandi og Hollandi. Þar verði væntanlega um að ræða mjög stórar fjárhæðir sem fjalla þurfi um í tengslum við fjáraukalög næsta árs. Þá hafi komið fram að endurskoðuð þjóðhagsáætlun fjármálaráðuneytisins verði birt í janúar. Samkvæmt samkomulaginu við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn muni sjóðurinn meta framvindu mála ársfjórðungslega. Miklir óvissuþættir séu varðandi fall bankanna og verðmæti eigna þeirra. Allt þetta hafi sín áhrif á forsendur fjárlaga og líklegt að þau mál skýrist með einhverjum hætti þegar líður á árið 2009.