200 milljóna halli afskrifaður

Samstarfsmenn kveðja Jóhann R. Benediktsson 30. september síðastliðinn.
Samstarfsmenn kveðja Jóhann R. Benediktsson 30. september síðastliðinn. Mynd Víkurfréttir

Uppsafnaður rekstrarhalli embættis lögreglustjórans á Suðurnesjum og sýslumannsins á Keflavíkurflugvelli upp á 200 milljónir króna hefur verið felldur niður. Alþingi samþykkti sérstaka fjárveitingu á fjáraukalögum ársins 2008 vegna þessa.

Í breytingartillögu við fjáraukalagafrumvarp 2008, sem meirihluti fjárlaganefndar Alþingis lagði fram á lokadegi þingsins fyrir jólahlé í gær, var lagt til að uppsafnaður rekstrarhalli embættisins verði felldur niður í ljósi veigamikilla skipulagsbreytinga á starfseminni þar sem eitt meginmarkmiðið er að vinna á fjárhagsvanda til frambúðar. Tillagan var samþykkt með 40 atkvæðum stjórnarþingmanna.

Fjárhagsvandi embættisins hefur verið þekktur um hríð. Halli var á rekstri embættisins upp á 59 milljónir í fyrra og uppsafnaður halli frá fyrri árum var 148 milljónir um áramót, (var 89 milljónir árið á undan).
Ríkisendurskoðun hafði bent á að margvíslegar ástæður væru fyrir þessum vanda. Fjölgun flugfarþega hefði aukið umsvifin, fjölgað verkefnum og kröfum um öryggi sem kölluðu á meiri fjárútlát, án þess að fengist hefðu fjárveitingar til að standa undir þeim. Brotthvarf varnarliðsins vartalið hafa kostað embættið 77 milljónir króna.

Jóhann R. Benediktsson, fyrrverandi lögreglustjóri á Suðurnesjum sagði skömmu áður en hann hætti störfum; „Ég ber ábyrgðina á rekstrinum og get ekki skýlt mér á bak við neinn hvað það varðar en hins vegar eru mjög flóknar ástæður sem liggja að baki þessari stöðu. Þetta mál hefur verið ítarlega rætt á öllum stigum stjórnsýslunnar og á milli margra ráðuneyta.“

Jóhann óskaði 24. september eftir því við dómsmálaráðuneytið að fá að hætta störfum þann 1. október en verulegur núningur hafði verið í samskiptum embættis hans og dómsmálaráðuneytisins. Átökin stóðu fyrst og fremst um fjárveitingar. Jóhann er hættur störfum og nýr lögreglustjóri tekur við á Suðurnesjum 1. janúar 2009. Skuldirnar sem hlaðist höfðu upp vegna aukinna umsvifa eru líka horfnar.

Ákveðið var að skilja að löggæslu, tollgæslu og öryggisgæslu við flug. Lögregla og landamæravarsla er hjá dóms- og kirkjumálaráðuneyti, tollamál hjá fjármálaráðuneyti og flugöryggismál hjá samgönguráðuneyti.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert